29.6.2009

Viðkvæmni er þetta

Mikil ósköp sem það er hægt að vera viðkvæmur. Ég fékk lánaða hjóðbók í vikunni, Þ. Eldjárn les eigin smásögur, Sérðu það sem ég sé. Á þetta hlusta ég í bílnum og geri mér eðlisleiðinlegar bílferðir að tilhlökkun. Það góða við þessar sögur er að þær eru ekki með óvæntum endi í ætt við þættina sem einu sinni voru sýndir í sjónvarpinu. Þvert á móti eru þetta blíðlegustu sögur - en vitanlega er rúsína í þeim. Í gær var komið að sögu um feluleik. Skyndilega fylltist blóðið í mér af streitu og kvíða svo ég þorði ekki annað en mæla í mér blóðsykurinn. Hann var í lagi, jafnvel eilítið of hár ef eitthvað var. Það var bara sagan og lestur skáldsins sem setti mig svona út af laginu að ég trúi því varla enn. Ef ég væri ekki hætt með öllu að nota áfengi hefði ég þurft að fá mér í tána til að róa mig niður. Skáldið á annars merkisafmæli 22. ágúst.

5.6.2009

Rakstur undir stýri

Um daginn ók ég samsíða konu sem var í óða önn að mála sig og gera sig fína um leið og hún ók á hámarkshraða eftir Sæbrautinni. Í morgun ók ég fram úr karli sem notaði tímann á milli þess sem hann skipti um gír til að raka sig. Hann á sér þær málsbætur að hann ók nokkuð undir hámarkshraða.
Í gær ók ég fram úr manni sem keyrði um göturnar og las um leið af blaði sem hann hafði stillt upp á stýrið.
Ég tek það fram að hingað til hef ég aldrei prjónað undir stýri heldur haft mér til trausts ágætan einkabílstjóra ... en ég ætti kannski að hugleiða það.