24.8.2011

Lundur


Lundur í Svíþjóð er fallegur bær. Götur eru steini lagðar og húsin eru sum hver frá því löngu fyrir daga hallamálsins en svo vel hirt að það mætti halda að viðhald væri bundið í lög með ströngum refsingum ef ekki er farið eftir þeim. Ég hef samt meiri trú á að umhirðan sé þeim í blóð borin.
*Miðbærinn er fyrir gangandi fólk. Bílastæði eru fá og torg eru fyrir fólk og markaði en ekki bifreiðar nema kannski yfir blánóttina eða eftir að vinnudegi er lokið.
*Sorphirða er til fyrirmyndar. Hver blokk eða íbúðakjarni deilir tunnum, sumar eru inni í til þess gerðum húsakynnum en aðrar eru á læstum, afgirtum útisvæðum. Sorp er flokkað í litað gler, glært gler, stífan pappa, dagblöð, blikk, rafhlöður, raftæki ef svo ber undir og loks almennt heimilssorp. Þessu tókst þeim í tæplega 90 þúsund manna bæjarfélagi að hrinda í framkvæmd og það fyrir a.m.k. 20 árum.
*Það þarf enginn að segja mér að Reykvíkingar geti ekki gert þetta líka. Íslendingar bera veðrið fyrir sig sinkt og heilagt en það eru engin rök hér. Eiga þeir ekki flestir úlpu og skó og eru þeir ekki hvort er eð einlægir aðdáendur girðinga sem fást í flekum bæði í Húsasmiðjunni og Byko. Eftir hverju erum við að bíða?