13.6.2012

Í franskri sveitasælu

Frönsk sveitaþorp í héraðinu Pays de la Loire, skammt suðvestan við París eru makalaust snyrtileg og falleg. Íbúar virðast samtaka um að dedúa við húsin sín og garðana; umhyggja fyrir sínu nánasta umhverfi virðist vera fólki í blóð borin. Ég hef ekki séð eina tyggjóklessu og engan sígarettustubb. Þetta minnir mig á bókina Almost French eftir Sarah Turnbull. Þar segir höfundur meðal annars frá því þegar hún ætlaði út í bakarí í París á gúlpandi joggingbuxum. Franski kærastinn hennar spurði hneykslaður hvort hún ætlaði virkilega út svona til fara. Í hans frönsku augum var það ekkert annað en dónaskapur við meðborgarana að láta sjá sig ótilhafðan. Reykjavík er þorp en það er því miður óhreint og ótilhaft. Ég held að það vanti í Íslendinga fagurskyggnina.