22.9.2011

Tæknibrellur

Um nokkurra ára skeið hef ég verið haldin prjónaáráttu. Áráttan snýst aðallega um að læra nýjar tæknibrellur og framan af góndi ég gjarnan á youtube þar sem amerískar prjónadívur með mergjaðan hreim sýndu listir sínar. Ég var sérdeilis sólgin í flóknar uppskriftir og snúin verkefni en um leið og ég réð fram úr þeim og náði á þeim tökum þurfti ég að fá eitthvað nýtt að læra.

Um síðustu áramót þótti mér ég eiga orðið heldur mikið af garni. Mér fannst næstum eins og taugakerfið í sjálfri mér væri í beinu sambandi við vaxandi garnbirgðir og því fylgdi stígandi óþol. Ég vil ekki hafa of mikið af dóti í geymslu, það er betra að geyma það úti í búð. Ég ákvað að frá og með ársbyrjun skyldi ég ekki kaupa eina garnhnotu fyrr en gengið hefði á byrgðarnar svo um munaði. Nú er farið að rofa til enda hef ég fundið upp á ýmsum ágætum leiðum til að losa mig við garnið. Raunar hef ég verið svo dugleg að ég ákvað að verðlauna mig í dag með því að fara með garn í poka í Bjarkarás og gefa. Það var gott.



Hér eru örmyndir af peysu sem ég er að prjóna nú um stundir úr færeyskri ull. Uppskriftin er eftir danskan hönnuð sem ég er búin að læra margt af. Bráðum ætla ég að leggja prjónana mína á hilluna og geyma þá þar í svona 20 ár. Það hef ég gert áður og svo undarlegt sem það er þá fer manni fram við það líka.