20.9.2011

Borgundarhólmsvasi og munablæti

Systir mín dvelur gjarnan á Borgundarhólmi í sumarleyfinu sínu. Þá leigir hún hús í Svaneke, sem er fallegt, lítið þorp á austurhluta eyjunnar. Við heimsóttum hana einu sinni. Það er hverrar krónu virði að fara til Bornholm.

Á eyjunni þverfótar ekki fyrir keramiksverkstæðum.

Um helgar þverfótar ekki fyrir skranmörkuðum. Þar eru einkum og sér í lagi til sölu eldhúsvogir eins og voru til á hverju íslensku heimili í eina tíð; þær voru festar á vegg með skálinni á og svo tók maður skálina út og helli hveitinu í. Ef einhvern langar í þess háttar vog fær hann hana pottþétt á laugardegi á Borgundarhólmi.

Ég keypti mér einn hlut á skranmarkaði í Neksø, og það er þessi keramikvasi:



Ég væri sjálfsagt fyrir löngu búin að losa mig við hann ef ekki væri fyrir það hvar ég keypti hann. Ég segi við sjálfa mig í hvert skipti sem ég handfjatla hann, „Þennan vasa keypti ég á Borgundarhólmi,“ og rifja upp í leiðinni hvað allt er fallegt þar. Um daginn setti ég í vasann falleg og ilmandi sorgarblóm.

Og vegna þess að bróðir minn, sem hélt úti því sem hann kallaði munablætisblogg, hefði fundið út með hraði hvaða frómi keramiker renndi vasann datt mér í hug að bera hveiti á botninn. Þá kom þetta í ljós:



Vasinn er sem sé frá Søholm stentøj á Borgundarhólmi - ég skil ekki fangamarkið og á ekki von á úr þessu að úr því rætist.

1 Aths.:

Blogger Elísabet skrifaði ...

Hveititrixið er snilld! Það á ég eftir að nota. Og vasinn finnst mér afar fagur. Og mig langar til Bornholm að gramsa og drekka pínulítið hvítvín.

22/9/11 07:46  

Skrifa ummæli

<< Á forsíðu