16.2.2010

Maður er bara bit

Ég má til að leggja nokkur fagleg orð í faglegan belg fyrst fagstjórinn í LHÍ er búinn að hafa fyrir því að brjóta ísinn. Kjólarnir utan á óléttum eurovisionkynnunum voru ljótir, punktur. Og varla fyrirfinnast ljótari sett en settin í ríkissjónvarpinu - jafnvel ekki í bíbísí. Hvaðan kemur til að mynda þetta drasl sem er í hillunum í Kastljósinu. Hefur skúringafólkið ekkert þarfara að gera en þurrka rykið af ósköpunum. Ég spyr. Og herra minn trúr, hvað eru verðirnir á alþingi eiginlega að hugsa að hleypa alþingiskonum í þingsal í öllum þessum ljótu og víðu peysulufsum. Er búið að rækta hverja eina og einustu fagurfræðitaug úr Íslendingum eða hvað? Maður má barasta þakka fyrir jakkafötin og bindið utan á karlpeningnum. Einn þingmaðurinn, því miður kvenkyns, sat í þinginu í dag í vægast sagt skessulegum fötum. Ég varð að líta undan.

Annars fór ég í matvöruverslun um síðustu helgi og gerði mér til dundurs að rannsaka klæðaburð og svip viðskiptavinanna. Ég segi það satt, engum stökk bros og klæðaburðurinn á langflestum var svo ruddalegur að ég missti næstum matarlystina. Það ætti að skylda fólk til að klæða sig upp á áður en það fer að versla í matinn. Nei, kannski ætti einmitt að skylda fólk til að mæta í jogginggalla í matarbúðir, þjóðin myndi þá kannski lafa í kjörþyngd aðeins lengur - ef það er þá ekki orðið of seint.

Er maður eitthvað skárri sjálfur?

1 Aths.:

Anonymous Nafnlaus skrifaði ...

skemmtileg pæling hjá þér góða ég er hjartanlega sammála þér í einu og öllu og langar að bæta við innkaupaferðina að það er líka svo mikið skeytingarleysi held jafnvel að fólk myndi varla taka eftir því ef einhver gæfi upp öndin í búðinni! kv Dagný fagurfræðingur hehe

17/2/10 13:47  

Skrifa ummæli

<< Á forsíðu