5.3.2009

Langamma átti tölubox

Ég á í minni mínu myndir af mér þar sem ég sit á gólfinu hjá langömmu minni, fyrir framan dívaninn hennar. Það stafar meðalalykt frá náttborðinu hennar, ég á náttborðið núna en lyktin er farin. Ég er að leika mér að tölunum hennar, hún á fullt box af þeim.

Ég klippi tölur af flíkum áður en þær fara slitnar og skældar í sorptunnuna ... ef ég klippi þá ekki flíkurnar líka í ræmur og hekla úr þeim mottur undir potta, það gerði ég í fyrsta skipti í gærkvöldi, ef ég nenni tek ég ljósmynd og hendi hér inn - ekki líklegt samt. Mér leggst bara ekki til nógu mikið af tölum. Stundum fer ég í álnavörubúð til að athuga með töluúrvalið en það er sannast sagna fátæklegt að minnsta kosti þar sem ég hef ratað. Svo kosta tölurnar hvítuna úr auganu. Að hugsa sér að ein, smá og venjuleg tala kosti 95 krónur, jafnvel rúmar 100 krónur.

Veit einhver um búð þar sem maður kemst í almennileg tölubox, mig langar nefnilega að safna tölum og eiga fullt box af þeim. Svo kemur að því að ég fer að safna í kringum mig meðalalykt líka þótt ég eigi ekki von á að mér eldist aldur til þess að verða langamma, ekki nema þá í plati.

4 Aths.:

Blogger Unknown skrifaði ...

Ég á troðfullt tölubox sem er komið frá mömmu (einhverra hluta vegna nennti hún ekki að eiga það lengur sjálf) og svo bæti ég smám saman í það. Hvað gerirðu við allar tölurnar?

Ég á líka svona bernskuminningar af mér á stofugólfinu heima hjá ömmu og afa með töluboxið hennar ömmu.

5/3/09 15:33  
Blogger krummi skrifaði ...

Meiri söfnunaráráttan í þér systir góð!

Þú þyrftir að komast í heimsókn til okkar sem eigum hvergi rými til að geyma hluti og drasl, enda hendum við jafnóðum og kaupum aldrei neitt. Á endanum eigum við ekkert. Kosturinn er sá að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvað það á eftir að kosta að flytja héðan úr freðmýrinni.

Skoðaðu annars þetta blogg:

http://tingestar.blogspot.com/

Þessi kona er málfræðingur og býr í Gautaborg. Hún klippir líka klæði í ræmur og heklar úr þeim alls konar körfur og pottaleppa, m.m.

5/3/09 15:52  
Blogger María skrifaði ...

Ég ætla bara að horfa á tölurnar því tölur eru margar hverjar svo fallegar .... svo hekla ég dálítið af fallegum smekkum á börn og þeir verða að vera með almennilegum tölum. En, Eyja, ertu alveg hætt að blogga „opinskátt", mér fannst svo gaman að sjá það sem þú töfrar fram úr prjónunum.

5/3/09 17:39  
Blogger Ragga skrifaði ...

Hæ María
Ég er líka svona tölunostalgíumanneskja. Er nýbúin að eignast boxin hennar ömmu sem dó fyrir ári. Afi gaf mér. Finnst frábært að klippa treyjur og prjóna/hekla úr - er að spá í að gera mér þannig tösku fyrir sundfarðir.
Takk annars fyrir heimsóknina á bloggið mitt.
kv
Ragga E

25/3/09 13:55  

Skrifa ummæli

<< Á forsíðu