11.8.2008

Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,
allir reyna að græða sín blæðandi sár,
alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,
allir þekkja ástina, undarlegt er það.
Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,
maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.
Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,
kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.
Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,
maðurinn er sumar með geisla og blóm,
maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,
maðurinn er tími og eilífð í senn.

Brot eftir Ólínu Andrésdóttur.
Gunnar Stefánsson fjallaði um hana og tvíburasystur hennar Herdísi á Rás 1 á þjóðhátíðardaginn. Sátum í bíl á suðurleið eftir 25 ára júbíleum í MA og vorum komin á fremsta hlunn með að slökkva á tækinu - áttum von á einhverju með þjóðernisívafi ... en reyndin varð heldur betur önnur. Mitt fyrsta verk á virkum degi var að ná mér í ljóðasafn systranna.