19.5.2015

Ilmur græðandi vors


Í Botanisk hage í Osló gætir margra grasa - bókstaflega - og þau voru í marglitum blóma um miðjan maí. Á sama tíma hangir ekki lauf á íslensku tré. Veðurbarinn Íslendingur ætti að safna sér fyrir vorferð suður á bóginn þótt ekki væri nema yfir helgi. Það má fá flugfar á ósanngjörnu verði, sem sé fyrir tiltölulega lítið fé, ef maður er þokkalega fyrirhyggjusamur og skipuleggur sig snemma. Það er nefnilega eitthvað græðandi við gróður.
Annars hringdi í mig ungur maður í gær og sagði mér allt, hreinlega allt, um starfsemi UNISEF á Íslandi. Hann vildi þakka mér fyrir stuðninginn við samtökin um daginn þegar verið var að safna fyrir börnin í Nepal eftir jarðskjálftana. Ég vil gjarnan gefa án þess að mér sé þakkað fyrir það; mér fannst næstum óþægilegt að fá allar þessar vel smurðu, vel útilátnu þakkir. En svo fórum við að tala um gróðurinn og þá sagði hann mér af ösp sem hann sá niðri í bæ. Hann fann á henni brum og hún ilmaði!