5.1.2014

Skúffubrotið

Þegar ég var í lyfjafræðinni fór ég einhverju sinni í verknám í Reykjavíkur apótek, sem þá var á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis, virðulegt og fallegt apótek. Þar lærði ég að brjóta saman pappír þannig að úr varð skúffa. Ég var þarna að læra um töfluslátt, púðursprengingar í þurru vetrarlofti og granúleringu. Granúlatið, sem búið var til úr fínni púðraðri blöndu af lyfjaefni og fylliefnum, var sem sé sett í svona pappaskúffu áður en það var svo slegið í töflur. Ég gleymdi auðvitað aðferðinni alveg um leið. Mörgum árum síðar, kannski hálfum öðrum áratug, ákvað ég að hringja í lyfjafræðinginn sem kenndi mér brotið. Þá var hann byrjaður að vinna í heilbrigðisráðuneytinu. Ég hringdi og sagði deili á mér, fékk samband við manninn, sem hafði vitaskuld gaman að erindinu. Hann var ekki lengi að rifja aðferðina upp og við fórum í gegnum hana þarna yfir símalínuna. Síðan þá bý ég reglulega til nýja skúffu bara til að búa hana til og halda við vitagagnslausri þekkingunni. Í dag bjó ég til þessa:
... og nú er ég búin að skjalfesta hana líka.