29.3.2013

Tvær naktar konur
Við stóðum naktar sitthvoru megin við bekkinn í búningsklefanum í Laugardalslauginni, ég og fullorðin, þéttholda kona með stór og væn brjóst.
Við þurrkuðum okkur í þykkri þögninni, búnar að synda í sólinni.

Eftir drykklanga stund sagði hún glaðlega:
Þú ert með svona lítil brjóst.
Já, svaraði ég, þau eru lítil.
Áttu systur, spurði hún.
Já, ég á systur.
Er hún með lítil brjóst?
Nei, hún er með stór brjóst.
Er hún eldri eða yngri en þú, spurði þá konan og leitaði að reglu.
Hún er yngri, svaraði ég að bragði.
Við erum líka tvær systurnar, sagði hún. Systir mín er yngri en ég en hún er með lítil brjóst!