4.4.2012

Orð og ofgnótt

Ofbeldi er birtingarmynd ofgnóttar og svo er einnig um málæði, segir mannfræðingurinn Michael Jackson í sinni frábæru bók Existential Anthropology. Þess vegna er það stundum lítið annað en ofbeldi gegn þeim sem orðið hefur fyrir sárri lífsreynslu að tala í þaula um hana á sama tíma og hann reynir hvað hann má í hljóði að skilja hana. Við verðum að gæta orða okkar en falla ekki í þá gryfju að fylla upp í þagnirnar með orðum eða mæla í orðastað þess sem þjáist. Þögn þarf ekki að vera birtingarmynd afskiptaleysis eða uppgjafar, heldur þvert á móti tillitssemi og virðingar.
 
Viðurkennum að þjáningar afhjúpa takmarkanir tungumálsins, segir Jackson, og að það er ekki hægt að ná utan um þjáninguna með orðum. Sú lífsreynsla er til að orð koma málinu ekki við.
 
Hannah Ardent sagði að vorkunn væri málglöð en samkennd ætti í mestu vandræðum með að koma orðum að hlutunum.
 
Fær einhver Þögn er gulls ígildi úr páskaegginu sínu?