10.5.2009

Frusu saman

Vetur og sumar frusu saman, myndin er tekin kl. 7 að morgni sumardagsins fyrsta.

6.5.2009

Það var snyrt sig undir stýri

Ég get varla hlustað á útvarpið á meðan ég ek ... bróðir minn getur vitnað um það að ég tala helst ekki heldur undir stýri, ég er bara svo takmörkuð að mér finnst það ærinn starfi að aka í þessari illa hönnuðu, grámóskuborg. Það er því ekki að undra að mér hafi brugðið í brún í gærmorgun þar sem ég þeystist á minni rennireið eftir fjögurra akreina hraðbrautinni út úr úthverfinu mínu. Upp að hægri hliðinni geystist bifreið á fleygiferð, dama á besta aldri undir stýri ... í vinstri lúku hélt hún á dós af kinnalit ... með þeirri hægri hrærði hún í dósinni með stórum bursta og svo bar hún burstann upp að fésinu. Ég segi fyrir mig að mér finnst það býsna vandasamt að bera á mig kinnalit ... reyndar svo að ég þarf að taka tilhlaup að því.

Og fyrst borgina ber á góma má ég til að minnast á þetta forljóta hverfi sem Skeifan og Fenin eru. Kærastinn sýndi mér loftmynd af hverfinu - myndin var við hliðina á annarri loftmynd frá Cincinnati í Bandaríkunum. Undir myndunum var spurt hvor væri frá Reykjavík. Það fór náttúrulega ekkert á milli mála hvor var hvor. Það er eiginlega makalaust hvað þetta er forljótur og ómanneskjulegur blettur ... hann hlýtur að vera einsdæmi í veröldinni ... maður þarf að herða sig upp áður en maður leggur í hann. Var virkilega ekki hægt að hanna svolítil huggulegheit þarna?