25.3.2009

Með Birtu ... sem kom í heiminn í september. Hún á heima hjá góðu fólk í Kópavoginum og við fórum að heimsækja hana um síðustu helgi. 

17.3.2009

"You are never too old to set another goal or to dream a new dream."
C.S.Lewis

11.3.2009

Ég sé ekki betur en að krókusarnir séu komnir hálfa leið upp úr moldinni hjá Unni. Unnur er aftur á móti farin. Hún verður til moldar borin í vikunni. Hún var einstök blómarós. Það voru forréttindi að fá að kynnast henni þótt ekki væri nema af því að búa við sömu götu. Hún plantaði krókusum í hjartað í mér.

5.3.2009

Langamma átti tölubox

Ég á í minni mínu myndir af mér þar sem ég sit á gólfinu hjá langömmu minni, fyrir framan dívaninn hennar. Það stafar meðalalykt frá náttborðinu hennar, ég á náttborðið núna en lyktin er farin. Ég er að leika mér að tölunum hennar, hún á fullt box af þeim.

Ég klippi tölur af flíkum áður en þær fara slitnar og skældar í sorptunnuna ... ef ég klippi þá ekki flíkurnar líka í ræmur og hekla úr þeim mottur undir potta, það gerði ég í fyrsta skipti í gærkvöldi, ef ég nenni tek ég ljósmynd og hendi hér inn - ekki líklegt samt. Mér leggst bara ekki til nógu mikið af tölum. Stundum fer ég í álnavörubúð til að athuga með töluúrvalið en það er sannast sagna fátæklegt að minnsta kosti þar sem ég hef ratað. Svo kosta tölurnar hvítuna úr auganu. Að hugsa sér að ein, smá og venjuleg tala kosti 95 krónur, jafnvel rúmar 100 krónur.

Veit einhver um búð þar sem maður kemst í almennileg tölubox, mig langar nefnilega að safna tölum og eiga fullt box af þeim. Svo kemur að því að ég fer að safna í kringum mig meðalalykt líka þótt ég eigi ekki von á að mér eldist aldur til þess að verða langamma, ekki nema þá í plati.